Okkar samkeppnisréttaráætlun
A. Stefnulýsing
Stjórn Securitas hf. hefur samþykkt eftirfarandi samkeppnisréttaráætlun fyrirtækisins. Það er stefna Securitas og dótturfélaga að ástunda virka og öfluga samkeppni á þeim mörkuðum sem fyrirtækið starfar á og bjóða ávallt samkeppnishæf kjör á sviði öryggismála. Tilgangur samkeppnisréttaráætlunar Securitas er að tryggja fagleg og gegnsæ vinnubrögð og fyrirbyggja háttsemi sem brotið gæti gegn ákvæðum samkeppnislaga. Samkeppnislög nr. 44/2005 eru sett til að vinna gegn hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum ásamt því að auðvelda aðgengi nýrra samkeppnisaðila á markaðinn. Starfsmenn Securitas skulu í öllum tilvikum virða ákvæði samkeppnislaga og án undantekninga koma í veg fyrir aðgerðir sem kunna að stangast á við ákvæði laganna. Það er á ábyrgð stjórnenda fyrirtækisins að innleiða og kynna starfsmönnum samkeppnisréttaráætlun Securitas og gera viðeigandi ráðstafanir að henni sé fylgt. Ábyrgð stjórnenda og starfsmanna er mikil þar sem brot á þessum reglum getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér hvort sem er fyrir fyrirtækið eða einstaka starfsmenn Securitas. Samkeppnisréttaráætlun Securitas skal vera aðgengileg bæði á innraneti og ytraneti fyrirtækisins.
B. Tilgangur og markmið samkeppnisréttarstefnu Securitas
Tilgangur samkeppnisréttaráætlunar Securitas er að greina og draga úr samkeppnisréttarlegum áhættuþáttum fyrirtækisins og tryggja eins og kostur er að fyrirtækið starfi í samræmi við samkeppnislög og góða viðskiptahætti. Til að tryggja að það markmið náist leggur Securitas áherslu á að stjórnendur og starfsmenn fyrirtækisins hafi eftirfarandi að leiðarljósi í sínu starfi:
- Í fyrsta lagi er lögð áhersla á að starfsmenn tileinki sér og virði þá þætti sem koma fram í samkeppnisréttaráætlun þessari. Það birtist m.a. í því að aðlaga sig að ýmsum kröfum sem lögin gera til háttsemi fyrirtækisins, stjórnenda þess og starfsmanna.
- Í öðru lagi skulu starfsmenn Securitas og dótturfélaga sækja fræðslu um samkeppnismál í samræmi við fræðsluáætlun fyrirtækisins. Vönduð fræðsla leiðir til virkrar samkeppnisréttaráætlunar og að hún verði hluti af daglegu starfi starfsmanna.
- Í þriðja lagi er samkeppnisréttaráætlunin hluti af daglegum störfum starfmanna Securitas og vegvísir þegar kemur að viðskiptalegum ákvörðunum. Verði starfsmaður Securitas, eða dótturfyrirtækis, uppvís að því að brjóta gegn samkeppnislögum í störfum sínum af ásetningi eða stórfelldu gáleysi getur það leitt til viðurlaga í starfi, auk þess sem slíku broti kann að fylgja ábyrgð samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga.
- Í fjórða lagi skulu allir starfsmenn gæta þess að samskiptum milli Securitas og samkeppnisaðila sé ávallt hagað þannig að tryggt sé að ákvæði laga séu virt og að á engan hátt stuðlað að samráði eða samstilltum aðgerðum í skilningi samkeppnislaga.
C. Fræðsla
Starfsmönnum Securitas og dótturfélaga skal standa til boða fræðsla um samkeppnismál í samræmi við fræðsluáætlun fyrirtækisins. Regluleg námskeið verða haldin fyrir stjórnendur, stjórn og starfsmenn Securitas og rafrænt kennsluefni í boði fyrir alla nýliða. Sérstök áhersla verður lögð á þá stjórnendur og starfsmenn sem eiga í viðskiptum við keppinauta eða þurfa að taka ákvarðanir um kjör viðskiptavina fyrirtækisins. Einnig skal starfsmönnum tryggð sérfræðiaðstoð komi upp samkeppnisréttarleg álitaefni í tengslum við störf þeirra í þágu Securitas. Securitas leggur áherslu á að allt starf á vegum fyrirtækisins sé ávallt framkvæmt í anda samkeppnislaganna. Eftirfylgni með ákvæðum samkeppnislaga er ekki valkvæð í starfsemi Securitas heldur ófrávíkjanleg regla.
D. Umsjón með framkvæmd samkeppnisréttarstefnu
Umsjón með framkvæmd samkeppnisréttarstefnu Securitas er í höndum forstjóra Securitas og gæða-og öryggisstjóra í forföllum hans. Einnig skulu starfsmönnum tryggð sérfræðiaðstoð komi upp samkeppnisréttarleg álitaefni í tengslum við störf þeirra í þágu Securitas. Er það gert í samráði við forstjóra eða framkvæmdastjóra öryggismála.
E. Ferli við tilkynningu samkeppnilagabrota
Ef starfsmaður verður var við að samskipti hafi átt sér stað eða háttsemi hefur verið viðhöfð sem gæti falið í sér brot gegn samkeppnislögum er hann hvattur til að láta umsjónaraðila vita um slíkt þegar í stað. Umsjónaraðili framkvæmir nauðsynlega rannsókn um mögulegt brot gegn samkeppnislögum. Þegar því er lokið skal kynna niðurstöður fyrir framkvæmdastjórn sem síðan metur hvort málið sé þess eðlis að það skuli kynnt stjórn og/eða samkeppniseftirlitinu. Með því gefur Securitas yfirlýsingu um samstarfsvilja Securitas við að upplýsa málið og óskar um leið eftir niðurfellingu eða lækkun hugsanlegrar sektar sem af broti getur hlotist.